Um Perluna
Perlan er teiknuð af Ingimundi Sveinssyni arkitekt og var vígð 21. júní 1991. Byggingin samanstendur af gríðarstóru glerhvolfi sem hvílir ofan á sex hitaveitugeymum, sem hver um sig getur rúmað um 4 milljónir lítra af jarðhitavatni. Perlan er stálgrindarhús en stálgrindin hefur öðru hlutverki að gegna en tengja saman hitaveitugeyma og mynda hvolfþak. Grindin sem er hol að innan er ofnakerfi Perlunnar. Á köldum vetrardögum streymir heitt vatn um stálgrindina, en kalt vatn á heitustu sumardögum.
Fyrstu hugmyndir um byggingu glæsihúss á Öskjuhlíð eru frá árinu 1930 og þær hugmyndir koma frá meistara Jóhannesi Kjarval. Um musterið segir Kjarval: „Átti að þekja musterishliðarnar spegilhellum, svo norðurljósin gætu nálgast fætur mannanna – átti að skreyta þakið kristöllum í allavega litum, og ljóskastari átti að vera efst á mæninum sem lýsti út um alla geyma. Húsið sjálft átti að svara birtu dagsins og táknum næturinnar.“ Þetta er ótrúlega nákvæm lýsing á byggingu sem var hönnuð og reist 60 árum síðar.
Öskjuhlíðin er sannarlega perla Reykjavíkur. Þar hafa yfir 176.000 tré verið gróðursett og er hún nú skógi vaxinn sælureitur sem sífellt fleiri borgarbúar og ferðamenn heimsækja. Hér má finna ummerki um fjölbreytta jarðsögu seinni hluta ísaldar. Á síðasta jökulskeiði var mikið landsig þegar ísaldarjökullinn skreið yfir landið og má sjá menjar um jökulrof, eins og hvalbak með jökulrákum. Í lok ísaldar fyrir um 10 þúsund árum var Öskjuhlíðin eyja. Því til sönnunar má finna sjóbarið grjót í um 43 metra hæð yfir sjávarmáli umhverfis hlíðina.
Fyrsti hitaveitugeymirinn var reistur árið 1939 og var þá nánast gefið að hafa hann á Öskjuhlíðinni í 61 metra hæð yfir sjávarmáli. Sú hæð gefur nægan þrýsting til að knýja vatn upp á tíundu hæð stórhýsis sem byggt yrði í 38 metra hæð yfir sjávarmáli, en það er einmitt hæðin á Skólavörðuholti þar sem Hallgrímskirkja stendur. Heitt vatn sem streymir úr iðrum jarðar er í dag ekki aðeins talið sjálfsagt á Íslandi, heldur er það beinlínis nauðsynlegt.
Stríðsminjar í Öskjuhlíð
Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947 Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi? Því er til að svara að minjar stríðs geta verið margs konar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál. Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því alls staðar umhverfis okkur í samfélaginu. „Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðar er hins vegar hægt að staðsetja. Hérlendis er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að sýna og varðveita sögu þessa tímabils. Þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi. Í þessari grein verður hins vegar reynt að gefa vísbendingu um hvar helstu leifar mannvirkja og hertóla úr síðari heimsstyrjöldinni er að finna. Ummerki varnarliðs Bandaríkjahers frá kalda stríðinu bíða betri tíma. Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.
Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Norðurland fékk það sem kalla má miðlungi öflugar varnir en Austfirðir fengu sístar varnir, aðallega vegna þess hve afskekktir þeir voru. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvesturhorninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land. Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að meginmunur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.
Hér má sjá heillegustu braggabyggð landsins. Hana má finna á Miðsandi við Hvalfjörð og er í eigu og umsjón Hvals hf. Vorið 1944 var skipuð með lögum Nefnd setuliðsviðskipta til að semja við stjórn setuliðsins um kaup á öllum þeim varningi sem það vildi selja. Ári síðar var Sölunefnd setuliðseigna skipuð til að sjá um sölu hermannaskála, bæta úr landspjöllum af völdum setuliðsins og greiða landeigendum skaðabætur. Nefndirnar luku störfum árið 1947 og 1948. Bæjar- og sveitarfélög fengu forkaupsrétt á fasteignum í þeirra umdæmum og gátu hagnast vel á viðskiptunum. Auk þess leystu braggarnir brýnan húsnæðisvanda, sérstaklega í Reykjavík. Til dæmis hagnaðist Akureyrarbær um nærri 300 þúsund krónur þegar hann áframseldi herskála á bæjarlandinu. Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má enn þá sjá í fullri notkun. Enn er jafnvel búið í íbúðarhúsum sem reist voru úr braggaefni. Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár. Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkastur en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Patterson-flugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.
Tilvísun: www.visindavefur.is/svar.php?id=4609