Það er eitthvað rómantískt og ævintýralegt við svani (Cygnus) enda koma þeir fyrir í fjölmörgum sögum sem tákn hreinleika og sakleysis. Trygglyndi svanapara við hvort annað og sinn varpstað er vel þekkt og höfðar sterkt til okkar mannanna. Álft (Cygnus cygnus) er af ættbálki andfugla (Anseriformes) ásamt gæsum og ýmisskonar öndum en telst ein til ættkvísla svana hér á landi.
Stærðin skiptir máli
Auðvelt er að greina álftir frá öðrum fuglum á hvítu fjöðrunum, stærðinni og löngum hálsinum. Fullorðin álft vegur 6-12 kg og er einn af stærstu fuglum heims sem geta flogið. Til að koma svo stórum og þungum skrokk á flug þarf gott tilhlaup, nokkurskonar flugbraut til að blaka löngum sterkum vængjum. Vænghaf álftarinnar mælist allt að tveir og hálfur metri. Fætur álfta eru svartir en nefrót gul með svartan nefbrodd á fullorðnum fuglum. Ungar hafa dökkan gogg og fætur þeirra eru öskugráir að lit en lýsast með aldrinum. Þeir verða kynþroska 3-6 ára gamlir. Álftin er stærsti fugl landsins, ekki einu sinni fullvaxta haförn (Haliaeetus albicilla) nær stærð karlkyns svans.
Til að halda við þessum stóra skrokki þurfa álftir mikla fæðu sem þær sækja í jurtaríkið. Á vorin og sumrin halda þær oftast til í mýrlendi og við vötn þar sem þær éta ýmiss konar vatnagróður. Þær sjást einnig við sjávarsíðuna þar sem þær éta marhálm (Zostera marina) og grænþörunga. Mikill fjöldi álfta safnast saman í nýrækt bæði að vori og hausti; á tún, bygg- og kartöfluakra þar sem þær geta valdið bændum nokkru tjóni.
Vissir þú þetta um álftir?
- Álftarfjaðrir voru verðmæt vara og notuð sem skriffæri fyrr á tímum
- Álftir eru sterkir fuglar og árásargjarnir yfir varptímann. Vitað er til að þær hafi drepið fé og hunda, og slasað menn með sínum sterku vængjum. Óráðlagt er að nálgast álftarhreiður.
- Fullorðin álft vegur allt að 12 kg og er einn stærsti fugl á jörðinni sem getur flogið.
- Vænghaf álftarinnar getur náð tveimur og hálfum metra.
- Álftir hafa verið alfriðaðar á Íslandi frá árinu 1914.
Svanir á Íslandi
Álftir finnast um allt land, bæði á hálendi og láglendi. Stofnstærð hefur vaxið talsvert síðustu ár og nú eru um 30-35 þúsund álftir á Íslandi hvert haust. Varpstofninn telur 5-6 þúsund pör. Langstærstur hluti stofnsins eru farfuglar sem halda til Bretlandseyja að hausti en snúa aftur snemma vors í sínu tignarlega oddaflugi. Það finnast þó álftir sem hafa vetursetu á Íslandi allt árið um kring. Flestar þeirra halda til við suður- og vesturströndina, en einnig við Mývatn og Tjörnina í Reykjavík.
Eins og aðrir andfuglar, fella álftir allar flugfjaðrir sínar síðsumars og verða ófleygar. Þá er sagt að þær séu „í sárum“. Áður fyrr nýttu Íslendingar sér flugleysi fuglanna á þessum árstíma og drápu sér álftir til matar. Mikilvægasta fellistöð álfta er í Lóni, í Austur-Skaftafellssýslu, en þar safnast saman mörg þúsund fuglar í sárum. Talið er að þriðjungur stofnsins haldi sig í Lóni þegar fjaðrafelli stendur sem hæst.
Fjölskyldulífið
Álftahjón eigna sér óðal sem þau verja fyrir öðrum álftum og fuglum. Óðalið er oftar en ekki við tjörn eða vatn. Þar búa fuglarnir sér til svokallaða dyngju þar sem kvenfuglinn verpir 4-6 hvítum eggjum. Dyngjan er nokkuð stór, búin til úr gróðri úr nágrenninu og fóðruð með dúni og fjöðrum fuglanna. Oft nota álftarpör sömu dyngju ár eftir ár ef vel hefur gengið að koma upp ungum. Álegan tekur 35 daga, þá liggur kvenfuglinn á eggjum en karlinn ver óðalið. Bæði kyn ala önn fyrir ungunum og fjölskyldan heldur saman þar til hún yfirgefur landið seint að hausti. Álftir eru einkvænisfuglar sem halda tryggð hvort við annað þó komið geti til skilnaða og framhjáhalda, eins og gengur og gerist. Álftir geta orðið nokkuð gamlar, jafnvel 30 ára.
Ævintýri, kveðskapur og tíska
Dulúðin sem einkennir svani hefur verið mörgum skáldum innblástur. Svanir koma því víða við í ævintýrum, bæði hér heima og erlendis. Ein fræg íslensk barnasaga segir frá prinsessunni Dimmalimm (Muggur, Guðmundur Pétursson Thorsteinsson), frá árinu 1921. Dimmalimm frelsar prins úr svanaálögum með ástina að vopni. Síðar var samin tónlist og leikrit eftir Dimmalimm (Atli Heimir Sveinsson) og verkið hefur verið flutt reglulega í leikhúsum landsins.
Svanirnir snertu einnig við H.C. Andersen, einum frægasta rithöfundi heims, þegar hann skrifaði söguna „Litli ljóti andarunginn“ árið 1843. Sagan fjallar um ungan svan sem villist í andarhreiður. Þar fær hann óblíðar móttökur vegna þess hve ólíkur andarungunum hann er, en eins og í sönnu ævintýri fer allt vel að lokum.
Tignarlegt fas svansins hefur orðið uppspretta að mörgum frægum tón- og dansverkum. Þar ber hæst „Svanavatnið“ (Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj) sem er samið eftir samnefndu ævintýri.
Frægasti kjóll sögunnar?
Svanir hafa einnig hrifið fatahönnuði gegnum tíðina þar sem ýmis klæðnaður hefur skírskotað til hvíta fjaðrahamsins. Björk Guðmundsdóttir söngkona tók ást sína á svönum alla leið þegar hún klæddist svanakjól við afhendingu Óskarsverðlaunanna árið 2001. Nú er þetta einn umtalaðisti kjóll samtímans.
Álftahlekkir fyrir fróðleiksfúsa
- Flott síða á Fuglavefnum
- Grein um álftina frá Náttúruminjasafni Íslands
- Fróðleiksmolar frá Náttúrufræðistofnun Íslands
- Myndband þar sem álft ræðst að kind
- Stutt myndband af álftafjölskyldu
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndarar: Dr. Þórður Örn Kristjánsson & Ragnar Th. Sigurðsson