Haförninn (Haliaeetus albicilla) er títt nefndur konungur íslenskra fugla, enda er fullvaxta örn mikilfenglegur í sjón. Íslenski örninn er af haukaætt (Accipitridae) og er eini fulltrúi ættarinnar hér á landi.
Íslenski arnarstofninn í hættu
Örninn er áhugaverður fugl og saga hans er ekki síður merkileg. Hún markast af gengdarlausu hatri og ofsóknum manna gegn erninum fyrr á tímum. Á síðari hluta 19. aldar var Vargafélagið stofnað, við Breiðafjörð og Húnaflóa, en þau greiddu laun fyrir hvern drepinn örn fram til ársins 1905. Talið er að 95 ernir hafi verið drepnir um aldamótin 1900 sökum þessa. Þrátt fyrir friðun frá árinu 1913 hélt arnarstofninn áfram að minnka og árið 1960 voru aðeins 20 pör á Íslandi. Hugarfarsbreyting átti sér svo stað með stofnun Fuglaverndarfélags Íslands árið 1963, sem bjargaði þessum magnaða fugli frá útdauða.
Skemtilegar staðreyndir um örninn
- Ernir verða kynþroska við fjögurra til sex ára aldur.
- Hámarks aldur arna er um 30 ár, en elsti villti örn sem vitað er um varð 38 ára gamall.
- Ernir halda tryggð við maka sinn alla lífstíð.
- Í tilhugalífinu dansa ernir himnadans. Arnaparið læsir þá saman klónum og annað þeirra flýgur um meðan hitt hangir á hvolfi. Fuglarnir láta sig falla tugi metra og byrja svo dansinn að nýju. Þetta er tilkomumikil sýn.
- Í dag er örninn rækilega vaktaður af Fuglavernd og Náttúrustofnun Íslands.
- Gömul þjóðtrú segir að börn yrðu minnug af því að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf.
- Sá sem þráði að sjá hulda hluti átti að bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augun á sjálfum sér.
- Til eru gamlar sögur af örnum sem tóku lömb, ketti og jafnvel ungabörn.
Einn stæðsti ránfugl veraldar
Íslenski haförninn er með stærstu ránfuglum veraldar, ásamt frændum sínum Stellers haferninum (Haliaeetus pelagicus), ameríska Harpy erninum (Harpia harpyja) og fillipseyska erninum (Pithecophaga jefferyi). Fullvaxinn íslenskur haförn vegur 5-7 kg og er 70-90 cm að lengd. Sökum stærðar sinnar er örninn þungur á loft og nokkuð stirðbusalegur ránfugl. Karlfuglinn er nefndur ari og er nokkru minni en assan, eins og kvenfuglinn er kallaður. Þess konar stærðarmunur kynjanna er einkenni ránfugla. Örninn er brúnn að lit en lýsist nokkuð með aldrinum, þá sérstaklega um höfuð og háls. Fleyglaga stél fullorðins arnar er hvítt, en brúnt á ungfugli. Goggurinn er krókboginn og fæturnir sterklegir, en hvort tveggja er gult að lit á fullorðnum fuglum og dökkt á ungfuglum. Hafernir hafa gríðarlega vængi og svífa á 2-2,5 metra breiðu vænghafi. Vængirnir eru breiðir, ferkantaðir og „fingraðir“, en svo kallast aðgreind lögun flugfjaðranna. Ernir sjást oft óravegu þar sem þeir svífa hátt yfir landi í forsala vinda.
Hve margir ernir eru á Íslandi?
Stofnstærð íslenska arnarins er vel þekkt og var 80 varppör árið 2018. Aðal heimkynni arnarins er á Vesturlandi og um 60 varppör verpa við Breiðafjörð. Fjöldi geldfugla er talinn vera 50-100 svo heildarfjöldi að hausti er 210-260 fuglar. Haförninn verpir einnig við austurströnd Grænlands, í norðurhluta Evrópu og í Asíu alla leið að Kyrrahafi. Flest varppör finnast þó í Noregi.
Íslenski örninn veiðir sér fugla til matar líkt og aðrir ránfuglar. Sjófuglar eru vinsælasta bráðin, enda er nóg af æðarfugli (Somateria mollissima), máfi (Laridae) og fýl (Fulmarus glacialis) á þeirra kjörlendi. Ernir eru einnig þekktir fyrir að veiða fisk á grunnsævi, bæði hrognkelsi (Cyclopterus lumpus) og laxfiska. Þrátt fyrir ránfuglaflokkun er örninn mikil hrææta, ekki síst ungir fuglar yfir vetrartímann. Hræát varð mörgum erninum bráður bani þegar eitrun fyrir tófu stóð sem hæst. Notkun eiturs var bönnuð árið 1964 fyrir tilstilli Fuglaverndunarfélags Íslands, en þá fór arnarstofninn loks að rétta úr kútnum.
Varp og uppeldi
Arnarpar helgar sér óðal sem það ver fyrir öðrum örnum og parið heldur sig innan óðalsins megnið af árinu. Fuglarnir gera sér dyngju úr spreki, hvönn og þangi og fóðra það að innan með fjöðrum og sinu. Uppáhalds hreiðurstæði arna er í smáhólmum eða stöpum við sjó, en á ofsóknartímabilinu undir lok 19. aldar flúðu flest arnarpörin hátt upp í óaðgengilega kletta. Ernir hefja varp snemma vors, oftast um miðjan apríl. Eggin eru 1-3 talsins, hvít að lit og klekjast á 35-40 dögum. Kvenfuglinn liggur mest á eggjunum en karlfuglinn sér um fæðuöflun, þó hann leggist öðru hvoru á eggin stutta stund. Ungarnir klekjast blindir og hálf naktir. Þeir eru algerlega háðir umönnun foreldra sinna fyrstu vikurnar og kvenfuglinn heldur sig því hjá þeim fyrst um sinn. Þegar ungarnir hafa stálpast heldur assan til veiða með maka sínum og skilur ungana eftir óvarða í hreiðrinu. Þeir verða loks fleygir 10-11 vikna gamlir, en fylgja foreldrunum um óðalið fram eftir hausti.
Haförninn er staðfugl á Íslandi. Fullorðnir fuglar halda sig að mestu innan síns óðals árið um kring en ungfuglar flækjast oft um landið og skoða sig um. Á veturna getur verið erfitt fyrir óreynda erni að veiða sér til matar þegar lítið er um auðvelda bráð og því leggjast þeir oft á hræ. Reglulega berast fregnir af grútarblautum örnum. Þeir hafa þá lent í selshræi eða mistekist að bana fýl áður en hann spúði grúti sér til varnar. Best er að handsama þá fugla, þrífa og koma aftur til heilsu – enda er hver einstaklingur dýrmætur fyrir stofninn. Vetrarflakk ungfuglanna er forsenda þess að örninn nemi að nýju sín gömlu óðul um landið. Vonir eru bundnar við að örninn nemi aftur gömlu varpsetrin sín í náinni framtíð.
Viltu eignast fljúgandi dreka?
Ernir koma víða við í þjóðtrú Íslendinga, kveðskap og kennileitum. Ef einhvern langar að eignast dreka í anda Game of thrones þáttanna, getur sá hinn sami laumað skíra gulli í arnarhreiður. Ef svo heppilega vill til að ófrjótt egg liggi í hreiðrinu, ætti flugdreki að klekjast úr því. Gullið ætti svo að verða að óskasteini svo sá hinn sami megi óska sér þess sem hugurinn girnist.
Hlekkir til að heimsækja
- Skemmtilegt efni á Fuglavefnum
- Síða um haförninn frá Náttúrufræðistofnun Íslands
- Heimasíða Fuglaverndar Íslands
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson