Spóinn (Numenius phaeopus islandicus) er af ættbálki vaðfugla (Charadriiformes) og snípuætt (Scolopacidae). Fulltrúar snípuættarinnar hér á landi eiga það sameiginlegt að vera farfuglar með sérhæfðan gogg til að afla hryggleysingja sem fæðu. Þessi sérhæfði goggur gerir það að verkum að margar tegundir vaðfugla geta sótt fæðu á sama svæði án þess að vera í samkeppni innbyrðis. Hver goggur hentar vissum hryggleysingjum til fæðuöflunar á tilteknum stöðum.
Stærð og útlit
Spóinn er fremur stór vaðfugl sem vegur 350-500 gr og er 40-42 cm að lengd. Vængir eru stórir miðað við stærð fuglsins, vænghafið 75-90 cm. Spóinn er brúnleitur og hefur oft gráa tóna í fiðri og ljósa fjaðraenda. Kviður og undirvængur er ljós en bak og höfuð dekkra með dökkri augnrák. Stél er þverrákótt en gumpur hvítur og verður áberandi á flugi. Helsta einkenni spóa eru langir blágráir fætur ásamt 7-10 cm löngum íbjúga goggi, en hvort tveggja nýtist einstaklega vel við fæðuleit í votlendi og fjörum landsins. Kynin eru eins útlits þó kvenfuglinn sé örlítið stærri. Ungir spóar eru svipaðir og fullorðnir fuglar að sjá en goggur þeirra nokkru styttri fyrst um sinn.
Vissir þú?
- Orðalagið „Spóinn vellir graut“ vísar til hljóðsins sem heyrist þegar hafragrautur vellur í potti.
- Íslenskir spóar fljúga til Senegal í Vestur-Afríku á haustin. Það er um 5000 km leið sem tekur þá aðeins 80-120 klst.
- Mesti flughraði spóa í farflugi er 80-90 km/klst.
- Spói á það til að hvíla sig á Bretlandseyjum á leið sinni til Íslands á vorin en aðrir fljúga beint alla leið frá Vestur-Afríku.
- Spóinn er stundum kallaður spíknefur eða spáfugl.
- Spóahret er kuldakast sem kemur með spóanum og er talið síðasta vorhretið.
Stofnstærð og ferðalög
Spói er alger farfugl og stoppar stutt við á Íslandi enda á hann langa ferð fyrir höndum til vetrardvalar í Vestur-Afríku. Deilitegundir spóa eru fjórar og er íslenski spóinn talinn sér deilitegund, islandicus, ásamt spóum á Grænlandi, Skotlandi og í Færeyjum. Varpstofn spóa hérlendis er stór eða um 250 þúsund fuglar sem er um 40% af heimsstofninum. Talið er að um 70% af deilitegundinni islandicus verpi á Íslandi.
Spóar koma flestir til landsins í hópum um miðjan maí en sjást þó stundum um mánaðamótin apríl/maí. Fuglinn er algengur á láglendi um allt land en færri verpa á hálendinu. Karl- og kvenfuglinn parast til frambúðar og sambandið er traust. Parið helgar sér óðal sem það ver af hörku gegn afræningjum. Aðalvarpsvæðin eru á mörkum þurr- og votlendis en hreiður spóa finnast þó allt frá grónum hraunum yfir í þurra sanda.
Varphegðun og fæða
Spóar eru ekki mjög félagslyndir nema þegar farflug til og frá landinu stendur sem hæst. Þeir verpa strjált og skipta sér ekki af öðrum spóum á varptíma. Kvenfuglinn verpir 4 eggjum í sinuklædda laut sem er lítið sem ekkert falin. Eggin eru ljósbrún með dekkri dílum og vega um 50 gr. Kynin skiptast á að liggja á eggjunum þá 27-28 daga sem álegan tekur. Ungar yfirgefa hreiðrið strax eftir klak og fylgja foreldrum á ætisslóð þar sem þeir njóta verndar fram að um 6 vikna aldri. Fæða spóa eru allskyns hryggleysingjar, skordýr, ánar og krabbadýr, ásamt berjum á haustin. Langa bogna nef spóans nýtist jafnt á þurru landi og í votlendi.
Spóinn leggur í langferð
Í ágúst safnast spóar í hópa og sjást þá oft margir saman í ræktuðu landi, að fita sig upp fyrir komandi langflug. Um miðjan september, þegar sterk norðanátt er ríkjandi, flýgur hópurinn af stað suður á bóginn í nokkurs konar oddaflugi. Nýlegar rannsóknir sýna að íslenskir spóar geta flogið í einum rykk alla leið til vetrarstöðva í Vestur-Afríku. Ferðalagið tekur þá innan við 5 daga og meðalflughraði er um 50 km/klst. Einnig hafa íslenskir spóar vetursetu í Portúgal og á Spáni, en í litlu mæli.
Spóavell er sumarsöngur Íslendinga
Spóinn á eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins en „vell“ hans hefur verið mörgu skáldinu yrkisefni. Hann hefur oft verið nefndur spáfugl enda mikill veðraviti. Þegar spói gefur frá sér samfellda runu af hljóðum sem minnir á fiðluóm kallast það „hringvell” og merkir að nú séu vetrarhörkur liðnar. Taktföst runa með nokkru bili á milli hljóðanna nefnist „langvell“ og er talið merkja að vætutíð sé í nánd.
Spóinn gefur frá sér mörg önnur torræð hljóð sem upplýsa nærliggjandi fugla um hvernig veður þróast hverju sinni. Spóavell, hnegg hrossagauksins (Gallinago gallinago) og dirrindíi heiðlóunnar (Pluvialis apricaria) eru fuglahljóð sem flestir landsmenn bíða eftir að heyra á vorin. Þetta eru tákn um að nú renni loksins upp tími bjartra sumarnótta.
Hlekkir fyrir fróðleiksfúsa
- Skemmtileg síða á Fuglavefnum
- Lykilstaðreyndir frá Náttúrufræðistofnun Íslands
- Flott efni um spóann frá Náttúruminjasafni Íslands
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson