Þetta er hrafninn
Hrafn (Corvus corax) er af ættbálki spörfugla (Passeriformes) en telst til svokallaðra hröfnunga sem eru ýmiskonar krákur. Hröfnungar hafa löngum verið þekktir fyrir greind sína og útsjónarsemi sem jaðrar oft við yfirnáttúrulega hæfileika. Það er því ekki að undra að margar sögur, ljóð og spakmæli séu til um hrafninn.
Íslenska orðið „hermikráka“ kemur af þeirri list hröfnunga að apa eftir hljóðum annarra dýra og þar á meðal manna. Heyrst hefur í hröfnum baula, mjálma og bjóða góðan daginn! Fuglar þessir eru oft á tíðum stríðnir og hrekkjóttir og geta framkvæmt hinar ótrúlegustu kúnstir sér til gamans.
Útlit og eðli
Krummi er annað algengt nafn yfir hrafn en þessi myndarlegi fugl er auðþekktur á kolsvörtu útliti sínu, stærð og rámu krunki. Hrafninn hefur mikla flughæfni og leikur loftfimleika við hvert tækifæri með sína breiðu sterku vængi en vænghafið er 100-150 cm. Á jörðu niðri valhoppar hrafninn eins og aðrir spörfuglar en fætur eru með sterkar klær og góðan gripstyrk. Hrafninn er um 60-75 cm á hæð og 1-2 kg en karlfuglinn er sjónarmun stærri en kvenfuglinn.
Útbreiðsla hrafnsins er um allt norðurhvel jarðar. Hrafninn er útsjónarsamur við fæðuöflun og finnst jafnt á láglendi, við sjó og hátt upp til fjalla. Hrafnar hafa jafnvel sést í Himalajafjöllunum í Nepal þar sem þeir elta fjallgöngumenn. Hrafninn finnst um allt Ísland og telur stofnstærð um 2000-2500 varppör eða kringum 11-13000 fugla að hausti.
Fjórar fræknar staðreyndir um hrafninn
- Ævilengd hrafna í náttúrunni er 10-15 ár en elsti merkti hrafninn varð rúmlega 22 ára. Hrafnar geta þó orðið mun eldri og talið er að krummi í eldi manna hafi náð 69 ára aldri!
- Það er stutt í galsa og leikaraskap þegar hrafninn er annarsvegar en sést hefur til hans renna sér á svelli á dósaloki, niður húsþök og fram af snjóhengjum sér til gamans. Sveitahundar og ernir eru vinsæl fórnarlömb hrekkjóttra hrafna sem æsa þá upp sér til skemmtunar.
- Loftfimleikar hrafna eru umtalaðir, þeir velta sér hringi og fljúga oft langar leiðir á hvolfi. Oft eru þeir tveir og læsa klónum saman á flugi. Stundum sjást þeir leika sér með sprek eða annað lauslegt sem þeir láta detta úr mikilli hæð og grípa svo með klónum til þess eins að endurtaka leikinn.
- Fálkar stela oft laupum frá hrafnapörum og nýta þá sem sitt eigið hreiður. Á Íslandi verpa flestir fálkar í gömlum hrafnslaupum.
Fjölskyldulíf hrafnsins
Hér á landi verpir hrafninn einna fyrstur fugla að vori, oft í byrjun apríl. Þegar ungar hrafnsins skríða úr eggjum eru aðrir fuglar að byrja sitt varp og því nóg af eggjum sem má stela til að fóðra sísvanga ungana. Hreiður hrafnsins kallast laupur eða bálkur og er merkileg smíði af spreki, hvönn og allskyns drasli úr næsta nágrenni sem hann safnar í myndarlega hrúgu. Hrafninn er þekktur fyrir glysgirni og stelsýki af háu stigi og má því má oft finna allskonar glingur í laupnum ásamt fjöðrum og ull.
Hrafninn er trúr maka sínum ævilangt og heldur parið sig á svipuðum slóðum sem kallast óðul. Hrafninn verpir 4-6 eggjum sem kvenfuglinn ungar útá 20-22 dögum á meðan karlfuglinn ber björg í bú og verndar óðalið fyrir öðrum hröfnum.
Matseðill og félagsskapur
Hrafninn er alger staðfugl á Íslandi og sækir oft í borg og á bæji yfir köldustu mánuðina þar sem eitthvað æti er að finna. Hann er nánast alæta, tækifærissinni sem fúlsar ekki við neinu ætlilegu. Hrafnar eru félagslyndir og nátta sig oft tugum eða hundruðum saman í klettum eða giljum utan varptíma en pörin halda saman yfir daginn. Geldfuglar safnast oft í stóra hópa sem geta talið yfir 100 fugla. Þessir geldfuglahópar eiga það til að herja á æðarvörp þar sem þeir bæði stela eggjum, ungum og skemma hreiður. Þeir leggjast jafnvel á nýborin lömb og afvelta kindur bændum til mikillar skelfingar. Hrafninn hefur því oft verið ofsóttur fyrir hörku sína í lífsbaráttunni.
Hrafninn í aldanna rás
Þjóðsagan segir að hrafnar þingi vor og haust þar sem þeir skiptast á fréttum úr sveitinni. Á þessum hrafnaþingum er ákveðið á vorin hvort fuglarnir verði þægir eða óþægir en á haustin raða þeir sér tveir og tveir á hvern bæ áður en vetur gengur í garð, ef hrafn er stakur í lok þings er hann drepinn.
Í norrænni Goðafræði átti æðstur Æsa, Óðinn, tvo hrafna sem hétu Huginn og Muninn. Hrafnar þessir flugu um jörðina og fluttu Óðni fréttir úr mannheimum. Hrafnar Óðins sátu í öndvegi og voru tákn visku og spádómsgáfu. Óðinn hefur því verið kallaður „hrafna-guðinn“ eða „hrafna-ásinn“ ásamt fleiri nöfnum. Margir norrænir menn telja enn að hrafninn geti sagt til um náttúruhamfarir og veðrabreytingar ef vel er lesið í krunk hans og atferli, því borgi sig að hlúa vel að krumma en þaðan er komið orðatiltækið „Guð launar fyrir hrafninn“.
Við landnám Íslands koma hrafnar við sögu. Hrafna Flóki sem nam land nokkru fyrr en Ingólfur Arnarson og skírði landið Ísland hafði meðferðis þrjá hrafna sem hann sleppti á hafi úti til leiðbeinslu. Fyrsti hrafninn snéri við til Færeyja, sá næsti flaug uppí loft og kom tilbaka á skip Flóka en sá þriðji vísaði veginn til Íslands. Hrafnar hafa þannig löngum verið tengdir landnámi eyjaskeggja og tengjast þjóðarsálinni sterkum böndum.
Hrafnaspark sem vert er að skoða
- Grein á vef NMSÍ
- Fróðleiksmolar á vef Fuglaverndar
- Upplýsingar á Fuglavefnum
- Hljóðupptökur af hrafnakrunki
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson