Sjáðu skúminn: Sjóræningi við Íslandsstrendur

Skúmur (Catharacta skua, einnig Stercorarius skua) tilheyrir ættbálki strandfugla (Charadriiformes) innan kjóaættarinnar (Stercorariidae). Skúmur er um margt merkilegur fugl. Hann líkist annars vegar stórum máfi, þreklega vaxinn með sundfit á milli tánna, og hins vegar hreinræktuðum ránfugli. Skúmurinn er með óvenju beittar klær og krókbogið nef sem gerir honum kleift að drepa og rífa í sig bráð að hætti ránfugla.

Einkennisfugl sandanna miklu

Skúmur er dökkleitur fugl, móbrúnn með hvíta rák framarlega á væng sem er sérstaklega áberandi á flugi. Goggurinn og fæturnir eru svartir og sterklegir. Karl- og kvenfuglar eru eins en kvenfuglinn er ívið stærri sem er enn eitt einkenni ránfugla. Skúmurinn vegur 1,2-1,6 kg og er 53-60 cm langur. Vænghafið mælist 1,3-1,4 metrar og fluglag minnir á stóran máf með kröftugum vængjasláttum en svifi á milli.

Útbreiðsla skúmsins á Íslandi er að mestu bundin við Suðurland og hann hefur oft verið nefndur einkennisfugl sandanna miklu. Stærstu vörpin finnast í Öræfum en einnig finnast vörp í Öxarfirði og Úthéraði. Núverandi stofnstærð íslenska skúmsins er ekki að fullu þekkt en árið 1985 var hún talin vera um 5400 pör. Stofninn hefur minnkað talsvert síðustu ár og í dag er hann talinn í bráðri hættu vegna minnkunar. Skúmavörp finnast einnig í Skotlandi, Noregi, á Færeyjum og alla leið norður við Svalbarða.

Fimm skúmslegar staðreyndir

  1. Skúvur er karlmannsnafn í Færeyjum.
  2. Önnur íslensk heiti fyrir skúminn eru hafskúmur og hákarlaskúmur, enda halda íslenskir skúmar til á úthafinu á veturna og geta gleypt mikla fæðu líkt og hákarlar.
  3. Skúmur er tækifærissinni í fæðuvali sem fúlsar ekki við neinu. Hann étur það sem hafið býður uppá, leggst á hræ, drepur fullorðna fugla og étur unga/egg í stórum stíl.
  4. Ungfuglar flækjast um heimshöfin í 4-9 ár áður en þeir stofna til hjúskapar og hefja varp á uppeldisslóðum sínum.
  5. Skúmur er langlífur fugl og vitað er um fugla sem náðu tæplega 40 ára aldri. Flestir verða þó ekki eldri en 30 ára.

Hinn harði sjóræningi

Skúmurinn sækir fæðu sína að mestu í hafið eins og aðrir sjófuglar. Sandsíli (Ammodytes marinus), loðna (Mallotus villosus) og fiskiúrgangur er veigamesta fæðan. Skúmurinn er einnig annálaður flugræningi sem hrellir kríur (Sterna paradisaea), lunda (Fratercula arctica) og jafnvel súlur (Morus bassanus) svo þær sleppi feng sínum. Skúmurinn veiðir fugla sér til matar, t.d. fýl (Fulmarus glacialis) og gæs (Anser anser) og hann stelur eggjum og ungum annarra fugla.

Atferli og varphættir

Skúmurinn er farfugl og kemur að ströndum landsins í mars. Þar helgar hann sér óðal og bíður eftir maka sínum, en skúmar parast til lífstíðar. Fuglarnir eru félagslyndir á varpstöðvum og þeir safnast oft saman við læki og tjarnir til skrafs og ráðagerða. Vörpin eru þó dreifð og hvert par ver sitt óðal af hörku. Skúmurinn er frægur fyrir harðar atlögur að þeim sem nálgast hreiðrið. Til eru sögur af húsdýrum og jafnvel mönnum sem hafa látist eftir höfuðhögg skúmsins. Sannleiksgildi þessara sagna má draga í efa, en skúmurinn getur engu að síður lostið óboðna gesti þungu höggi.

Hreiðrið er örlítil laut í sandi eða á þúfnakoll, stundum klædd með sinu en oft óeinangruð. Eggin eru oftast tvö, ljósbrún eða mosagræn með dökkum dílum, og vega egg um 90 gr. hvert. Kvenfuglinn sér að mestu um áleguna þá 29 daga sem hún tekur en karlfuglinn dregur björg í bú á meðan. Eftir klak yfirgefa ungarnir hreiðrið og flækjast um óðalið. Kvenfuglinn verndar ungana en karlinn heldur áfram fæðuöflun fyrir fjölskylduna.

Þegar sól lækkar á lofti og fer að hausta við strendur landsins yfirgefur skúmurinn heimahagana og heldur út á rúmsjó þar sem hann flækist um höfin. Ungfuglar verja 4-9 árum á úthafinu og fara víða á þeim tíma. Íslenskir skúmar hafa sést á austanverðu Atlantshafi, allt frá Biscaya-flóa suður undir strendur Vestur-Afríku, og stöku sinnum á vestanverðu Miðjarðarhafi. Þeir fara jafnvel að austurströnd Grænlands og norður fyrir Svalbarða.

Hvað merkir nafnið?

Nafnið skúmur kemur upphaflega úr færeysku sem „skúvur“ eða „skúgvur“ og er eina alþjóðlega fuglaheitið sem á uppruna sinn að rekja til Færeyja. Skúmur merkir sá dökki eða skuggalegi. Íslenska orðið „skúmaskot“ er dregið af skuggalegu yfirbragði fuglsins. Annað íslenskt orð sem má rekja til skúmsins er „kjaftaskúmur“ en skúmar eiga það til að gefa frá sér hljóð sem minna á hlátur og háreysti. Flest okkar þekkja einn eða tvo kjaftaskúma.

Hlekkir fyrir kjaftaskúma

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »