Sjáðu grágæsina: Stærsta gráa gæs veraldar

Grágæsin (Anser anser) tilheyrir fjölskyldu andfugla (Anatidae) eins og endur og svanir, en er af ættkvísl grárra gæsa (Anser) ásamt 11 öðrum tegundum. Grágæs er stærsta tegundin innan ættkvíslarinnar og stærsta gæs landsins. Fullorðinn fugl vegur 3-4 kg og er 70-90 cm að lengd. Kynin eru eins útlits en karlfuglinn er sjónarmun stærri. Grágæsin er grá að lit, eins og nafnið gefur til kynna. Höfuð, bak og vængir hennar eru gráir en kviðurinn hvítur með dökkum dílum. Goggurinn er fölbleikur eða appelsínugulur með ljósa nögl á nefi. Fæturnir eru fölbleikir með sundfitum milli tánna. Vængirn þeirra eru stórir og sterkir og vænghafið er 150-180 cm. Ljósgráir framvængir og hvítur gumpur eru áberandi á flugi. Ókynþroska fuglar líkjast þeim fullorðnu en eru litlausari og með svarta nögl á nefi.

Grágæsin dvelur um allt Ísland

Grágæsir eru að mestu leyti farfuglar og koma í stórum flotum yfir hafið snemma vors. Í byrjun mars mæta fyrstu fuglarnir á Suðurlandsundirlendi þar sem þeir fita sig upp fyrir komandi varptímabil. Karlfuglinn, sem kallast gassi, stendur vörð og passar sína frú svo hún hafi næði til að éta og safna forða fyrir áleguna. Á meðan kvenfuglinn er á hreiðri er gassinn mjög árásargjarn gagnvart boðflennum. Hann hvæsir, bítur og slær vængjum í þann sem hættir sér of nálægt.  Íslenski grágæsastofninn hefur vaxið þó nokkuð síðustu ár með aukinni byggrækt hérlendis og vetrarsáningu á Bretlandseyjum. Stofnstærðin er talin vera minnst 35-40 þúsund varppör en um 100 þúsund fuglar að hausti. Útbreiðsla grágæsarinnar er um allt land og hún verpir bæði á meginlandinu og á eyjum. Það er talsvert gæsavarp meðfram stærstu ám landsins en gæsin heldur sig að mestu undir 300 metra hæð yfir sjávarmáli.

Vissir þú þetta?

  1. Til að melta fæðuna verða gæsir að éta sand og drekka vatn. Þess vegna eru náttstaðir þeirra ávallt í nánd við hvoru tveggja.
  2. Þegar nýjar flugfjaðrir vaxa á gæsum eru þær mjög blóðríkar og viðkvæmar fyrir hnjaski. Oft blæðir úr væng í fjaðrafelli fuglanna og því er talað um „að vera í sárum“.
  3. Gæsaungar eru stundum kallaðir „gögl“.
  4. Gæsir ferðast mest í ljósaskiptum og V-laga oddaflug stórra gæsahópa er mjög einkennandi. Gæsirnar skiptast á að vera fremstar í flugi því það minnkar loftmótstöðu þeirra sem eru aftar og sparar hópnum orku í langflugi.
  5. Grágæsin er forfaðir flestra aligæsa sem eru ræktaðar til manneldis. Fyrstu heimildir af ræktun grágæsa eru yfir 3000 ára gamlar!

Gættu þín á ungunum – þeir gætu verið sætir!

Grágæsin verpir fremur snemma, fyrstu fuglarnir hefja varp í seinnipart apríl en varpið nær hámarki í maí. Eggin eru 3-6 talsins, stór, hvít og vega um 165 gr, sem samsvarar þremur hænueggjum. Hreiðrið er vel einangrað með gæsadún og þurri sinu, oft falið í þéttum gróðri nálægt vatni eða flæðarmáli. Kvenfuglinn liggur á en gassinn stendur vörð. Eins og með aðra andfugla, liggur gæsin mjög fast á urptinni og tekur bara áleguhlé til að drekka eða snyrta sig. Gæsin léttist mikið þá 27-28 daga sem álegan tekur og því er mikilvægt að hún hafi nægan orkuforða áður en hún hefur varp. Ungarnir yfirgefa hreiðrið um sólarhring eftir klak. Þeir fylgja foreldrum sínum á fæðulendur og fjölskyldan heldur saman þar til hún yfirgefur landið seint að hausti. Fæða unganna er sú sama og fullorðinna fugla; jurtir ýmisskonar og ber. Ungarnir eru gulgrænir að lit en fá snemma gráa einkennislit grágæsanna.

Gæsaungar eru oft spakir og auðtamdir. Þeir eiga það til að hænast að fólki, faratækjum eða öðrum fuglategundum, og elta þau. Þetta háttalag hefur komið mörgum þeirra í vandræði. Auk þess getur fólk lent í vandræðum því þó gæsaungum og fólki lyndi almennt vel, er sjaldnast sömu sögu að segja af gæsaforeldrum. Þeir verða fljótt árásargjarnir ef fólk skiptir sér of mikið af ungunum, hvæsa og geta bitið.

„Gæsaréttir“ – það er af sem áður var

Grágæsin fellir flugfjaðrirnar um mitt sumar, eins og aðrir andfuglar, og er því ófleyg fram í miðjan ágúst. Þetta kallast að vera í sárum. Á þessum tíma safnast gæsir oft í stóra flokka á ám, vötnum og sjó þar sem þær njóta verndar gegn afræningjum. Fyrr á tímum var gæsum í sárum smalað til slátrunar og þær drepnar í stórum stíl. Enn í dag má sjá ummerki eftir svokallaðar gæsaréttir á vissum stöðum á landinu. Gæsarekstrar lögðust þó af fyrir löngu og nú er gæsin friðuð yfir varp- og ungatímann. Grágæsaveiðitímabilið er frá 20. ágúst til 15. mars og gæsin er ein vinsælasta villibráð Íslendinga. Árleg grágæsaveiði er 30-45 þúsund fuglar.

Grágæsir fara til Bretlands á haustin… en ekki allar

Að hausti hópa gæsir sig í stóra flokka sem telja mörg hundruð fugla og yfirgefur landið. Íslenskar gæsir fara til Bretlands og flestar halda til á Skotlandi. Merkingar hafa þó sýnt að hluti stofnsins heldur til í Noregi og Hollandi. Nokkur fjöldi gæsa heldur sig hins vegar á Íslandi allt árið um kring. Hátt í þúsund fuglar dvelja á höfuðborgarsvæðinu og treysta mikið til á brauðgjafir borgarbúa yfir köldustu mánuðina. Enn fleiri fuglar finnast á Suðurlandi, þar sem þær þreyja þorrann á kartöflu- og byggökrum. Gæsin er einkvænisfugl sem parast til lífstíðar. Ef maki fellur frá, sem gerist oft, er hún fljót að parast á ný. Lífslíkur gæsa í náttúrunni er um 8 ár en þær geta orðið mun eldri, jafnvel yfir 20 ára. Gæsir eru miklar félagsverur og sjást sjaldan einar á ferð. Mikil stéttaskipting er innan gæsahópa. Fuglarnir slást um bestu stöðurnar og þeir reyndustu eru æðstir. Grágæsir „spjalla“ mikið og skvaldra svo þeim getur fylgt talsvert háreysti. Viðvörunarhljóð þeirra minna á lúðrablástur en gæsin býr líka yfir miklu og torræðnu kvaki sem vert er að hlusta eftir.

Fleiri gæsa-hlekkir

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson & Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »