Sjáðu stelkinn: Lítill og hávær

Þetta er stelkurinn

Stelkur (Tringa totanus) er af snípuætt (Scolopacidae) vaðfugla (Charadriiformes). Vaðfuglar eru farfuglar og koma til landsins í stórum hópum á vorin en fara þegar fer að hausta. Þó vaðfuglar ferðist margir saman og séu félagslyndir verpa þeir ekki í eiginlegum vörpum heldur dreift á láglendi. Fulltrúar snípuættarinnar á Íslandi eru ásamt stelknum, hrossagaukur (Gallinago gallinago), jaðrakan (Limosa limosa), lóuþræll (Calidris alpina), sendlingur (Calidris maritima) og spói (Numenius phaeopus). Þessar fuglategundir eiga það sameiginlegt að sækja í votlendi og fjörur þar sem þeirra langa mjóa nef nýtist til fæðuöflunar á lindýrum og ýmiss konar skordýrum. Stelkurinn er útbreiddur fugl í Evrópu, hann finnst í Asíu og alla leið austur til Kína. Íslenskir stelkir halda mest til á Bretlandseyjum yfir veturinn en flækjast þó til ýmissa landa við Norðursjó. Stofnstærð stelksins á Íslandi er nú metin um 75,000 varppör sem er talsvert minna en áður var talið. Fuglinn finnst um allt land en heldur sig mest á láglendi þótt hreiður finnist á stöku stað í allt að 400m hæð.

Fimm gjallandi staðreyndir um stelkinn

  1. Nafnið stelkur er dregið af orðinu „stöngull“ og vísar í langa granna fætur fuglsins.
  2. Enska heitið „Redshank“ og danska heitið „Rödben“ vísa til rauðra fóta en íslenska undirtegundin af stelk ( t. robusta) hefur appelsínugular fætur.
  3. Hægt er að fótmerkja stelksunga með stálhring strax í hreiðri eftir klak þar sem þeir hafa vel þroskaða fætur.
  4. Flestir íslenskir stelkar fljúga til Bretlandseyja á haustin. Stór hópur velur þó frekar að halda til við Faxaflóa og Suðvesturland yfir vetrartímann.
  5. Ísland er mikilvægasta varpsvæði stelksins í Evrópu með meira en 75.000 varppörum.

Sumarsöngur og langir fætur

Stelkurinn er grábrúnn að lit. Höfuðið er dökkt með ljósum dílum sem breytast í rákir þegar neðar dregur. Fuglinn getur virst yrjóttur með dökkt bak og ljósari kvið. Undirvængur hans er nánast hvítur en vængendar svartir, goggur er appelsínugulur með svörtum nefbroddi og þráðbeinn. Einkennandi fyrir stelkinn eru langir appelsínugulir fætur, vel til þess fallnir að vaða í votlendi. Enska heitið „Redshank“ og það danska „Rödben“ vísa í rauða fætur stelksins en íslenska undirtegundin (T. t. robusta) hefur appelsínugula fætur. Nafnið stelkur er dregið af orðinu stöngull og vísar í þessa löngu grönnu fætur.

Stelkurinn er meðalstór vaðfugl, hann vegur um 150 gr og er 25-29 cm að hæð. Flug hans er skrykkjótt og hann svífur oft eftir stutt flug á sínum 60-65 cm löngu vængjum. Stelkurinn tyllir sér oft á girðingarstaura og þúfur þar sem hann sér vel yfir varpsvæði sitt og lætur í sér heyra. Stelkurinn á eitt af hljóðum íslenska sumarsins enda liggur honum hátt rómur með miklum gjallanda sem lætur alla vita ef hætta er á ferðum. Ef fólk er á ferð á grösugum svæðum um sumartímann ætti það að staldra við og hlusta. Að öllum líkindum gellir stelkur í nálægð: tííjúú-tííjúú-tjiikk-tjiikk.

Hreiðurgerð í felum

Hreiður stelksins er yfirleitt í grasbrúsk, smá dæld sem hann fóðrar með sinu. Hann verpir 3-4 ljósbrúnum dílóttum eggjum í lok maí eða byrjun júní. Grasið hylur hreiðrið og álegufuglinn mjög vel svo erfitt getur verið að finna stelkshreiður í þýfðu landi. Bæði karl- og kvenfuglinn hugsa um hreiðrið þá 24 daga sem útungun tekur. Þegar ungar hafa klakist eru þeir aðeins sólarhring í hreiðrinu áður en þeir yfirgefa það og byrja éta sjálfir. Fætur unganna eru svo vel þroskaðir strax eftir klak að hægt er að merkja þá með stálhring í hreiðri. Ungar stelksins eru með frábæran felulit líkt og ungar annarra vaðfugla. Þeir eru dökkbrúnir með ljósbrúnar rendur sem gerir þeim kleift að hverfa inní umhverfið. Kvenfuglinn yfirgefur oft ungana fljótlega eftir klak til að jafna sig eftir áleguna en karlfuglinn passar upp á þá þar til þeir verða fleygir. Hann vísar þeim á góðar fæðilendur og og varar við hættum með sínu háværa kalli.

Tenglar til að vaða í

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »