Helsingi (Branta leucopsis) er andfugl (Anatidae) af ættkvísl svartra gæsa (Branta) sem eru oft kenndar við nýja heiminn í vestri. Gráar gæsir (Anser) eru hins vegar kenndar við gamla heiminn í austri. Ættkvíslirnar blandast svo á nyrstu búsvæðunum. Helsingi er hánorræn tegund en þrír vel aðskildir stofnar finnast á norðurslóðum. Einn stofn verpir í Norðaustur-Grænlandi, annar á Svalbarða og sá þriðji í Norður-Rússlandi.
Útlit og atferli
Helsingi er meðalstór fugl sem vegur 1,3-2,2 kg og er 58-70 cm langur. Eins og með aðrar gæsir eru kynin eins, þó karlfuglinn sé sjónarmun stærri. Helsingi er svartur á hálsi og brjósti og hvítur á kvið. Enni, kinnar og kverk fuglsins eru hvít eða rjómagul. Vænghaf mælist 132-145 cm en bæði vængir og bakhluti fuglsins eru gráleitir. Bæði goggurinn og fæturnir eru svartir. Ungfuglar hafa brúnleitan blæ á baki og höfuðið er dekkra en á fullorðnum fuglum.
Helsingi er alger farfugl og kemur í stórum flotum yfir hafið snemma vors. Í byrjun apríl mæta fyrstu fuglarnir á Suðurlandsundirlendi og fita sig upp fyrir áframhaldandi flug til Norðaustur-Grænlands en íslenskir helsingjar eru upprunnir úr þeim stofni.
Karlfuglinn stendur vörð og passar kvenfuglinn sem þarf næði til að safna fituforða fyrir komandi álegu. Á vorin halda um 70% af Grænlandsstofninum til í sveitum Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Grænlenski helsingjastofninn hefur vaxið nokkuð síðustu ár en orsök þess er ekki að fullu kunn. Þó telja margir að aukningin stafi af lægri dánartíðni vegna friðunar á Grænlandi, fremur en betri varpárangri fuglanna. Lágmarks stofnstærð á Grænlandi er um 40 þúsund varppör svo á Íslandi stoppa um 80 þúsund fuglar á haustin. Þar blandast þeir við litla íslenska stofninn.
Vissir þú þetta?
- Helsingi gefur frá sér rámt kvak sem minnir á hundagelt.
- Helsingi er aðeins veiddur á Íslandi og árleg veiði er um 2000 fuglar.
- Helsingi verpir vanalega í klettum til að forðast ref, en á Íslandi sækir hann í smáhólma umlykta djúpu vatni af sömu ástæðu.
- Helsingi er eina svartgæsin (Branta) sem verpir á Íslandi en frænka hans, margæsin (Branta bernicla), stoppar hér vor og haust á leið sinni til varpstöðva á Grænlandi.
- Gamlar íslenskar þjóðsögur segja að helsingi klekist ekki úr eggi en verði til úr rekaviði, og að hrúðurkarlinn helsingjanef (Lepas anatifera) sé fyrsta þroskastig hans.
Íslenski helsinginn
Íslenski helsinginn verpir snemma og fyrstu fuglarnir hefja varp um miðjan maí, sem er um 4 vikum fyrr en þeir fuglar sem halda til Grænlands. Eggin eru 3-6 talsins, hvít að lit og vega um 100 gr. hvert. Hreiðrið er vel einangrað með dúni, í smá dyngju úr driti fuglanna og tilfallandi efni úr umhverfinu. Helsingjar á Íslandi velja sér hreiðurstæði í vel grónum hólmum og eyjum sem eru umluktir djúpu vatni en það er besta vörnin gegn refnum (Vulpes lagopus, áður Alopex lagopus) sem er þeirra helsti afræningi. Kvenfuglinn liggur á eggjunum en bæði kynin hugsa um ungana. Álegan tekur um 25 daga og ungarnir yfirgefa hreiðrið fljótlega eftir klak til að hefja fæðuleit. Fæða unga og fullorðinna er kornsúra (Bistorta vivipara), starir og sef, ásamt þeim gróðri sem býðst hverju sinni.
Þróun íslenska helsingjastofnsins
Þegar líður að lokum september koma helsingjar frá Grænlandi og dreifa sér um sunnanvert miðhálendið þar sem þeir éta ber og annan hálendisgróður. Þeir staldra við í Skaftafellssýslum áður en þeir halda áfram til Bretlandseyja ásamt íslenskum fuglum og sjást þá gjarnan í ræktuðum túnum og votlendi.
Þróun íslenska helsingjastofnsins er merkileg. Fuglarnir stoppa hér á landi að vori á leið sinni á grænlenskar varpstöðvar þar sem þeir verpa í óaðgengilegum klettum. Stöku fuglar hafi ekki treyst sér lengra en til Íslands og því verpt hér. Fyrsta skráða tilvik var stakt par í Hörgárdal árið 1927 en næst á Breiðafirði árið 1963. Helsingjar verptu á Breiðafirði í 20 ár áður en varp lagðist af, en eftir það hefur varp aðallega verið á Suðurlandi. Stofnstærðin jókst hægt til að byrja með og árið 2005 voru um 20 hreiður á landinu. Helsinginn náði þó góðri fótfestu í Austur-Skaftafellssýslu og næstu ár fór stofninn hratt vaxandi. Árið 2014 voru líklega rúmlega 500 hreiður á landinu. Undanfarið hefur varp aukist mikið á Suðurlandi og árið 2019 var fjöldi hreiðra í Skúmsey við Jökulsárlón yfir 1000. Auk þess finnast nú mörg smærri vörp víða um landið. Helsinginn er því kominn til að vera í hópi íslenskra varpfugla og stofninn er talinn vera um 2000 varppör.
Hlekkir
- Það sem Náttúruminjasafn Íslands skrifaði um helsingja
- Flott síða á Fuglavefnum
- Fróðleikur frá Náttúrustofu Suðaustulands á Hornafirði
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson