Black tailed

Sjáðu jaðrakaninn: farfugl á Íslandi

Jaðrakan (Limosa limosa islandica) tilheyrir ættbálki vaðfugla (Charadrii) og er af snípuætt (Scolopacidae). Hann er náskyldur stelk (Tringa totanus) og spóa (Numenius phaeopus) innan undirættarinnar Tringinae. Undirtegund þessi verpir nær eingöngu á Íslandi en finnst þó á dreif um Vestur- og Mið-Evrópu aðallega í Hollandi og austur um Rússland. Jaðrakaninn er farfugl og halda íslenskir fuglar til við Bretland, Frakkland og á Íberíuskaga (Portúgal, Spánn, Marokkó) yfir vetrartímann.

Útlit jaðrakans

Jaðrakan er háfættur 40-45 cm langur og vegur um 350 gr.  Vængir eru stórir miðað við búkinn og er vænghafið 70-82 cm. Höfuð, háls og bringa hafa einkennandi ryðbrúnan lit, bak er gráleitt en kviður ljósari. Dökkir vængendar og stél ásamt hvítum vængbörðum og gumpi eru áberandi á flugi. Goggur er langur og beinn, gulleitur en dökkur fremst. Fætur eru langir, gráir eða svartir að lit og skaga þeir langt aftur fyrir stél þegar fuglinn er á flugi. Kynin eru eins en karlfuglinn þó skærari að lit yfir varptímann. Vetrarbúningur fuglanna er grár og yrjóttur.

Black tailed gotwid

Útbreiðsla og stofnstærð

Áður fyrr var jaðrakan bundinn við Suður- og Suðvesturland en dreifðist um landið eftir 1920. Fyrsta hreiðrið fannst við Mývatn 1963 og dreifðist tegundin þaðan um Austurland. Stofninn hefur stækkað mikið og nú verpir fuglinn í öllum landshlutum þótt suðurlandsundirlendið sé enn mikilvægasta búsvæðið. Jaðrakan heldur sig í ýmiss konar votlendi eða ræktuðu landi og er aldrei langt frá vatni. Stofnstærð er ekki að fullu þekkt en var nýlega metin 68.000 varppör.

Karlfuglinn má ekki mæta of seint á varpstað

Jaðrakan kemur til landsins í aprílbyrjun í oddaflugi. Bæði vor og haust stoppar fuglinn á ætisríkum leirum, fjörum og óshólmum til að fita sig upp fyrir og eftir erfitt langflug. Mikilvægustu svæðin eru í Borgarfirði, Álftafirði og óshólmar Eyjarfjarðarár en þar safnast saman mörg hundruð fuglar í ætisleit.

Fuglar bíða maka síns á varpsvæðinu en pörin ferðast ekki endilega saman til landsins og hafa ekki ætíð vetursetu í sama landi. Flest pör mæta á varpsvæðið á sama tíma en ef karlfuglinn er nokkrum dögum of seinn getur komið til skilnaðar. Hvernig pörin fara að því að tímasetja heimkomu sína rétt er enn ein óleysta fuglaráðgátan. Eftir stutt tilhugalíf velja fuglarnir sér varpstað á þúfnakolli eða öðrum þurrum stað í nálægð votlendis og verpa 3-4 eggjum. Eggið vegur um 40 gr. Jaðrakaninn er félagslyndur og myndar oft dreifðar varpbyggðir um votlendið.

Black tailed godwit

Varpvistfræði jaðrakans

Jaðrakan er einkvænisfugl sem verpir í litla dæld fóðraða sinu og er vel falin innan um gróður. Eggin eru dökkbrún eða ólífugræn með doppum og klekjast á 22-24 dögum. Bæði kynin liggja á eggjunum. Ungar yfirgefa hreiðrið sólarhring eftir klak og fylgja foreldrum sínum á vænlegar fæðuslóðir. Ungarnir flækjast víða um undir verndarvæng foreldra sinna þar til þeir verða fleygir 25-30 daga gamlir.

Hvað éta þeir – Hvert fara þeir?

Jaðrakan er tækifærissinni í fæðuvali. Vor og haust sækir hann í leirur og étur burstaorma, snigla og ýmiss konar krabbadýr. Á varptíma étur hann þá hryggleysingja sem algengastir eru á hans svæði allt frá ánum til flugnalirfa. Síðla sumars sækir hann í fræ og ber þegar þau bjóðast. Jaðrakanar eru félagslyndir þegar fæða er annarsvegar og oft má sjá stóra hópa á nýslegnum túnum og leirum að éta saman. Ungarnir nærast aðallega á skordýrum en éta svo það sama og fullorðnir fuglar þegar þeir stálpast. Jaðrakaninn yfirgefur landið í hópum í september. Kvenfuglarnir fara fyrst en karlfuglar verða eftir og vernda ungana þar til þeir verða fleygir. Sumir hópar fara til Bretlands en aðrir halda til Íberíuskagans.

Hvaða kemur nafnið?

Hvaðan nafnið jaðrakan á uppruna sinn er ekki að fullu vitað. Til eru bæði karlkyns, kvenkyns og hvorugkyns útgáfur af nafninu eins og jaðraki, jaðraka og jaðrakön ásamt fleiri orðmyndum.  Talið er að nafnið sé tökuorð úr gelísku „adharcan“ sem var notað um fuglinn vepju (Vanellus vanellus) eða jafnvel úr Færeysku þar sem nafnið jaðrakona var notað um keldusvín (Rallus aquaticus). Einnig hefur fuglinn verið kallaður mýrarspói og stálsnípa.

Vissir þú?

  1. Jaðrakan verður kynþroska 1-3 ára gamall.
  2. Algengt er að jaðrakan nái 15 ára aldri en sá elsti sem vitað er um var 23 ára.
  3. Jaðrakan er undarlegt nafn en elstu heimildir um nafnið á Íslandi ná aftur til ársins 1300.
  4. Jaðrakan er hávær á varpstað og rekur óboðna gesti frá sínu svæði með hvellum hljóðum. „Vigga vigga“, „Vita vita“ og „Vaddúdí vaddúdí“ eru algengustu hljóðin.
  5. Stofnstærð jaðrakans hefur aukist mikið undanfarna áratugi og hann numið ný svæði kringum landið.

Hlekkir sem jaðra:

fuglavefur.is

Náttúrufræðistofnunar Íslands

SIGLFIRÐINGUR.IS

YouTube

Skemmtilegt blogg um jaðrakan og aðra íslenska vaðfugla (á ensku).

English Version

Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »