Æðarfugl (Somateria mollissima borealis) er af ætt sjóanda (Merginae). Æðafugl er ein fárra andategunda sem elur allan aldur sinn á sjó og minnir því um margt á sjófugl frekar en önd. Hann hefur t.d. saltkirtla, líkt og svartfugl og mávur, sem gerir honum kleift að drekka sjó og losa saltið út. Til eru 5-6 undirtegundir æðarfugla í heiminum en sá íslenski finnst í Norður Kanada, á Grænlandi, Svalbarða og við Franz Jósepseyju.
Álegan er mikil áskorun
Áætluð stofnstærð æðarfugla við Ísland er um 250 þúsund varppör, eða 970 þúsund fuglar að hausti, sem telst einn stærsti stofn íslenskra varpfugla. Æðarfuglinn parast að hausti eða snemma vetrar. Karlfuglinn verndar spúsu sína fyrir ágangi annarra karlfugla svo hún hafi tíma til að éta og byggja upp nægan orkuforða fyrir komandi varp og álegu. Fæða æðarfugla eru ýmis botndýr eins og krabbadýr, ígulker, krossfiskar og jafnvel smáfiskur og hrogn. Við Ísland eru skeljar aðalfæða þeirra, aðallega kræklingur, smáir kuðungar og flekkunökkvar. Æðarfuglinn sækir mest af fæðu sinni á 2-5 metra dýpi en getur kafað allt niður á 42 m dýpi.
Kvenfuglinn eykur líkamsþyngd sína um 20% fyrir varptímann og er því búsældarleg þegar hún byrjar varp í maí eða júní. Ekki veitir af, því kvenfuglinn liggur ein á 3-6 eggjum í 24-26 daga og étur ekkert á því tímabili. Kollan liggur stöðugt á eggjunum um það bil 90-97% álegutímans og léttist við það um 25-45% af upphafsþyngd sinni. Margar kollur gefast því upp á álegunni og yfirgefa hreiðrið fyrir fullt og allt í misgóðu líkamlegu ásigkomulagi.
Ungarnir verja aðeins sólarhring í hreiðrinu hjá kollunni eftir klak en halda þá út á sjó í fæðuleit. Unginn lifir aðallega á marfló en líka smá kuðungi. Mamman er oftast fljót að láta sig hverfa frá ungahópnum en svokallaðar „fóstrur“ skerast þá í leikinn og gæta hópsins. Flestar fóstrur eru geldfuglar sem vernda ungana og leiða þá á fæðuslóðir. Á meðan fer mamman sjálf að éta til að byggja sig upp eftir svelti álegunnar. Fóstrur vinna oft saman með marga ungahópa, svo 15 -100 ungar saman í fæðuleit með nokkrum fóstrum er ekki óalgeng sjón.
Fimm hlýlegar staðreyndir um æðarfugl
- Dúntekja á Íslandi nær aftur margar aldir. Fyrstu friðunarákvæði æðarfugla komu fram árið 1786 en fuglinn hefur verið alfriðaður frá árinu 1847.
- Ævilengd æðarfugla í náttúrunni er talsvert löng. Hér á Íslandi hefur fundist æðarkolla sem enn var í varpi á þrítugsaldri.
- Æðarbændur setja þurrt hey sem einangrun í hreiðrið þegar þeir fjarlægja dúninn. Dúntekjan hefur engin slæm áhrif á æðarfuglinn.
- Æðarungar eru ekki nema sólarhring í hreiðrinu eftir klak, en þá halda þeir á sjó og byrja að éta sjálfir. Oft vernda geldkollur ungahópa annarra fugla fyrir afráni á sjónum og leiða hann að gjöfulum fæðusvæðum.
- Íslendingar tína og hreinsa um 80% af öllum æðardúni á markaði í heiminum!
Magnaður dúnn
Æðarfuglinn verður kynþroska við 3-5 ára aldur og snýr þá aftur á uppeldisslóðir sínar til að hefja varp. Kvenfuglinn ræður á varpstaðnum og karlfuglar geta oft flutt búferlum langar leiðir. Hreiður æðarfuglsins er merkilegt fyrirbæri. Þegar líður að varpi losnar dúnn af bringu kollunnar sem hún strýkur af sér með nefinu og notar sem einangrun í hreiðrið. Dúnninn hefur einstaka einangrunar eiginleika og heldur hitastigi jöfnu í hreiðrinu þrátt fyrir rysjótt veðurfar á norðurhveli.
Mannfólkið lærði snemma að meta einangrun æðardúns og tók til við að safna dúni úr hreiðrum til að búa til sængur og hlýjan fatnað. Íslendingar eru í fararbroddi þegar kemur að æðardúnframleiðslu og um 80% af æðardún í heiminum á uppruna sinn að rekja til Íslands. Ólíkt því sem margir halda, hefur dúntekjan engin skaðleg áhrif á kolluna eða varp hennar. Æðarbændur einangra hreiðrið með þurru heyi í stað þess dúns sem þeir taka og nostra mikið við varpfuglana í hverju æðarvarpi. Æðarfugl er án efa verðmætasti fugl landsins og er að sama skapi sá sem nýtur hvað mestrar verndunar.
Tenglar sem vert er að skoða
- Vefsíða Æðaseturs Íslands
- Skemmtileg síða um æðinn á Fuglavefnum
- Flottar myndir, texti og ljóð á síðu Náttúruminjasafns Íslands
- Myndband um æðabændur á Íslandi
- Sjáðu allt um fugla hér
Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson & ljósmyndari: Dr. Jón Einar Jónsson