Sjáðu kríuna: Frábær flugmaður

Þetta er krían

Kría (Sterna paradisaea) er af þernuætt (Sternidae) og er oft kölluð þerna. Krían er fíngerður fugl sem vegur varla meira en 100 gr. Fullorðnar kríur eru auðþekktar á klofnu stéli, svartri hettu á höfði, eldrauðum hvössum goggi og rauðum fótum. Fuglinn er annars hvítur að lit með gráa slikju á baki og svarta vængenda. Ungir fuglar hafa dekkri gogg og fætur og vantar fallega klofna stél fullorðnu kríunnar. Krían er hánorrænn fugl, mjög einkennandi fyrir sumartímann á norðurhveli.

Varpstöðvar hennar eru um allan norðurpól, kringum Svalbarða og Grænland, en hún dreifir sér líka um Evrópu, suður til Bretlands og Hollands. Á Íslandi verpir krían um allt land en heldur sig að mestu við ströndina. Dreifð kríuvörp finnast þó líka á hálendinu í nálægð við stöðuvötn. Krían kemur til Íslands um mánaðamótin apríl/maí og í huga margra Íslendinga kemur hún með vorið ekkert síður en hin ástsæla heiðlóa (Pluvia lisapricaria) okkar landsmanna.

Fjórar fljúgandi staðreyndir um kríuna:

  1. Margar kríur fljúga því sem nemur 3 sinnum til tunglsins og tilbaka á lífsleiðinni.
  2. Krían getur flogið á allt að 60 km hraða á klukkustund og það tekur hana aðeins 90 daga að fljúga á milli póla hnattarins.
  3. Árlegt pólflug kríunnar er eitt af undrum veraldar. Engin annar fugl leggur í viðlíka ferðalag enda ferðast hún að meðaltali 70,900 km ár hvert.
  4. Þrátt fyrir frábæra flughæfni á krían hættulega óvini. Þar ber helst að nefna kjóann (Stercorarius parasiticus) sem er duglegur að stela frá henni æti, enda stenst hann henni á sporði þegar kemur að loftfimleikum.

Fjölskyldulíf kríunnar

Stofn kríunnar er stór hér á landi en hefur farið minnkandi síðustu ár. Talið er að varpstofninn sé á milli 150-250 þúsund fuglar en stærsti hluti evrópsku kríunnar verpir á Íslandi. Stór kríuvörp er víða að finna t.d. í Rifi á Snæfellsnesi, við Jökulsárlón, á Reykjanesi, við Vík og í Hrísey en Hríseyjarvarpið er líklega það stærsta í Evrópu.

Hreiður kríunnar er einfalt, örlítil dæld í jarðveginn þar sem hún verpir 2-3 litlum eggjum brúnum að lit með dökkum doppum. Krían verpir yfirleitt í byrjun júní og álegan tekur 20-22 daga. Foreldrarnir ala önn fyrir unganum í 3-4 vikur eða þar til hann verður fleygur. Matseðill ungans er nær eingöngu smáfiskur, þá sérstaklega sandsíli (Ammodytes marinus) við ströndina og hornsíli (Gasterosteus aculeatus) inn til landsins. Krían étur þó einnig hin ýmsu skordýr og lindýr þegar svo ber undir. Sveiflur í íslenska sílastofninum undanfarin ár hafa haft neikvæð áhrif á afkomu kríunnar.

Bestu flugmennirnir?

Krían eyðir ævinni á flugi og sest sjaldan nema rétt til að hvíla sig og unga út eggjum. Hún er ótrúlega fimur flugfugl og andæfir oft í loftinu þar sem hún skimar um áður en hún tekur dýfur til að ná sér í æti eða hrekja óboðinn gest á braut. Þeir sem hafa hætt sér inná varpsvæði kríunnar þekkja vel árásargirni hennar og flughæfni. Allt varpið hefst á loft þar sem kríurnar steypa sér niður og gogga jafnvel í höfuð þeirra sem láta ekki segjast. Og já, það getur verið sárt! Hinir ýmsu fuglar sækjast í að verpa í nálægð við kríuna til að njóta góðs af verndun hennar enda óárennilegur flugher sem verndar varpsvæðið.

Krían er alger farfugl og heldur suður á bóginn þegar haustar. Þessi fíngerði fugl eltir sólina og heldur til Suður-Afríku þegar fer að rökkva á norðurhveli. Stór hluti heimsstofnsins heldur til við Suðurskautið yfir vetrartímann. Krían er því ein af fáum sem njóta tvöfalds sumars og birtu allt árið um kring.

Tenglar sem vert er að gogga í:

Grein frá Náttúrumynjasafni Íslands: https://nmsi.is/fugl_manadarins/krian/

Skemmtilegt myndband af kríum og kríuvarpi: https://www.youtube.com/watch?v=8wodvCvXRDk

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Myndir: Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »