Hitavættur: Sjálfbært, kraftmikið listaverk hjá Perlunni

Á toppi Öskjuhlíðar, við hlið Perlunnar, stendur forvitnilegt listaverk. Hugsuðurinn að baki þess samþættir náttúruvísindi og list á sjálfbæra, skapandi vegu.

Hitavættur og kraftmikil listaverk

Listaverkið Hitavættur (1988) stóð um tíma í Krýsuvík en er nú að finna nú við Perluna, Reykjavík. Listamaðurinn Robert Dell fékk Fulbright rannsóknarstyrk til að vinna verkið, höggmynd sem tengist jarðhita. Robert er brautryðjandi í sjálfbærri list og leggur áherslu á að vinna í sátt við náttúruna, ganga ekki á hana á neinn hátt. Þar nýtist tækni- og verkfræðikunnátta hans vel.

Í verkum sínum leitast Robert við að gera náttúruöflin sýnileg og áþreifanleg. Höggmyndir hans tjá oft síbreytileika náttúrunnar, vinda og veðuröfl. Hann vinnur úr ýmsum efnum sem bregðast hratt við hitabreytingum og skipta litum, líkt og kopar. Stundum notar hann endurkast ljóss gegnum kristala til að vísa til krafta jarðarinnar. Sjálfur segir Robert verk sín mynda nákvæm, tæknileg og efnisleg kerfi, eins konar gervilífheild.

Þetta er listamaðurinn

Robert Dell (f. 1950) er prófessor í verkfræði og afar fær á sínu sviði. Hann hefur helgað starf sitt vísindum og rannsóknum á sviði verkfræði og sjálfbærrar orku. Þar hefur hann átt þátt í fjölmörgum uppfinningum. Auk þess hefur hann verið gestakennari við Háskóla Íslands og Keili. Á árunum 1990-2001 hannaði hann fjölda sjálfbærra listaverka sem prýða nú fjölfarna staði á borð við Yellowstone þjóðgarðinn og bandaríska háskóla, m.a. Harvard, MIT og Tufts. Á Íslandi má finna verk eftir Robert við Geysi, Listasafn Reykjavíkur og Perluna.

Upplifðu útilistaverk Reykjavíkur í nýju smáforriti

Listasafn Reykjavíkur kynnti nýlega nýtt smáforrit (e. app) sem heitir Reykjavík Art Walk, en það má einnig stilla á íslensku. Með forritinu má kynnast á skemmtilegan hátt um tvö hundruð útilistaverkum sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með, auk fleiri verka. Hverju verki fylgir fræðandi og skemmtilegt efni; textar, myndir, hljóðleiðsagnir og leikir. Forritið getur líka leiðbeint notendum að næsta útilistaverki.

Forritið hentar fyrir Android og iOS stýrikerfi og því má hlaða niður endurgjaldslaust.

Hitavættur hjá Perlunni: Listaverk eftir Robert Dell

Translate »