Teista (Cepphus grylle) er af ætt svartfugla (Alcidae) ásamt lunda (Fratercula arctica), langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia), álku (Alca torda) og hinum sjaldgæfa haftyrðli (Alle alle). Þetta er arktísk fuglategund sem finnst víða við strendur norður Atlantshafsins og norður Ameríku. Til eru 5 undirtegundir af teistu í heiminum og er sú íslenska talin sér undirtegund (Cepphus grylle islandicus) og verpir eingöngu við Ísland.
Dökk og fögur rauðsokka
Teista er einstaklega fagur svartfugl með kolsvartar búkfjaðrir en skjannahvítan blett á væng og hvítar undirvængfjaðrir er sjást á flugi. Teista hefur svartan kvið en aðrir svartfuglar hvítan. Goggur er svartur og hvass en gin, tunga og fætur skærrauð yfir sumartímann. Ungfuglar og fullorðnir í vetrarbúning eru líkir ásýndar, gráhvítir að neðan en dekkri að ofan með gulleita fætur. Teista vegur 400-500 gr og er 30-38 cm að lengd. Hún er mikill kafari eins og aðrir svartfuglar og flýgur hratt en lágt yfir vatnsborðinu einnig á hún auðvelt með gang og röltir mikið kringum hreiðurholuna.
Útbreiðsla og stofnstærð
Teista verpir um allt land en þó síst við suðurströndina þar sem ákjósanlegt búsvæði skortir. Aðalheimkynnin eru grunnsævi Breiðafjarðar þar sem mikið er um varpstaði á milli steina og í klettaskorum. Ólíkt öðrum svartfuglum verpir teistan ekki í þéttum byggðum heldur dreift um strandlengjuna í stórgrýtisurðum. Teista er að mestu staðfugl sem heldur sig nærri landi allt árið en þó hafa sést merktir íslenskir fuglar við Grænland á veturna, aðallega ungfuglar á flækingi.
Íslenski teistustofninn hefur minnkað nokkuð seinustu ár og færst frá meginlandinu út í eyjar og hólma. Minkur (Mustela vison) á þar nokkra sök en hann hefur farið illa með mörg teistuvörp enda teista í grjóturð auðveld bráð. Margir fuglar farast einnig í grásleppunetum á vorin enda þau lögð á kjörsvæði teistunnar. Hrun í sandsílastofninum 2005 hafði einnig neikvæð áhrif á teistuna eins og aðra sjófugla. Lítið hefur verið veitt af teistu við Ísland og hún verið alfriðuð frá árinu 2017. Stofnstærð er ekki að fullu þekkt en er talin vera 10000-15000 varppör.
Vissir þú:
- Til eru fimm undirtegundir af teistu í heiminum og er sú íslenska sér undirtegund Cepphus grylle islandicus.
- Teista er eini svartfuglinn sem verpir tveimur eggjum, en aðrir verpa aðeins einu. Hún verður kynþroska 4 ára gömul og heldur tryggð við sinn maka og varpstað.
- Teista aflar mest af fæðu á grunnsævi en getur kafað í allt að tvær og hálfa mínútu niður á 30 metra dýpi. Aðalfæðan er sprettfiskur og sandsíli.
- Elsta merkta teista sem vitað er um veiddist í Alaska, 27 ára.
- Teista var alfriðuð á Íslandi 2017 þar sem stofnstærð hafði minnkað mikið síðustu ár.
Tilhugalíf teistna er fögur sjón
Í lok febrúar safnast teistur í voga og víkur að hefja tilhugalíf. Þær parast til frambúðar og halda tryggð við makann. Í tilhugalífinu stunda þær nokkurskonar dans sem svipar til dans fugla af goða- (Podicipedidae) og brúsaætt (Gaviidae). Þær hneigja sig og beygja á sjónum og sýna ýmis tilbrigði köfunar, reisa sig upp og hlaupa á vatnsfletinum. Þetta merkilega atferli er mikið sjónarspil. Þessu fylgir langdregið hátíðni tíst en af því hefur fuglinn hlotið nafnið teista. Tístið er fallegt fuglamál sem gaman er að hlusta eftir á vorin en teistur eru annars þöglar.
Varphegðun og fæða
Hvert par á sinn varpstað sem það heldur tryggð við, oftast er hreiðrið í grjóthleðslu eða inn á milli stórra steina. Teista er eini svartfuglinn sem verpir tveimur eggjum. Eggin eru hvít eða rjómagul að lit með dökkum dröfnum og vega um 50 gr hvort. Álegan tekur um 30 daga og annast báðir foreldrarnir ungana sem halda sig í sinni gjótu þar til þeir verða fleygir 30-40 daga gamlir. Teista lifir mestmegnis á sandsíli (Ammodytes marinus) og sprettfiski (Pholis gunnellus) sem er oft nefndur skerjasteinbítur eða teistufiskur. Hún étur þó ýmsa aðra smáfiska ásamt krabba- og lindýrum.
Þeisti, teisti eða teista?
Teista hefur einnig verið þekkt undir nafninu „þeisti“ eða „teisti“ á Íslandi og vísa þessi nöfn í hið langvarandi blístur fuglsins. Ungi teistunnar er kallaður kofa, teistukofa eða péturskofa og var hann nýttur til matar fyrr á tímum en kofnatekja hefur að mestu lagst af.
Flottir linkar sem tísta:
Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson