Prófíll: Ragnar Th. ljósmyndari

Ragnar Th. Sigurðsson hefur starfað með Toyota, Royal Geographical Society, Discover the World, og nú – Perlunni. Hann sérhæfir sig í náttúruljósmyndun, einkum á norðurslóðum, og er einn fremsti ljósmyndari okkar Íslendinga í því fagi.

Sérstaða í bransanum

Ragnar varð fljótt frumkvöðull í íslenskri ljósmyndun þar sem hann nýtti snemma stafrænan búnað við ljósmyndun og myndvinnslu. Árið 1985 stofnaði hann Arctic-Images, stúdíó og grafíska vinnustofu. Hann fylgist stöðugt með nýjustu tækni og kannar nýjar leiðir í ljósmyndun – allt frá hugbúnaði til dróna og framandi myndavéla. Þessi áhugi Ragnars, skapandi hugsun og ástríða á náttúrunni hafa leitt hann í ótal spennandi ævintýri þar sem hann fangar náttúruundur á mynd með einstakri snilli.

Frami utan landssteinanna

Frá árinu 1975 hefur Ragnar fengist við fjölbreytt verkefni. Meðal þeirra eru ljósmyndun fyrir forseta og ríkisstjórn, stórar auglýsingaherferðir og útgáfa bóka, dagatala og tímarita. Sérstaða hans er án efa í náttúru- og ferðaljósmyndun. Fjölmörg tímarit hafa birt myndir Ragnars og undirstrikað velgengni hans á alþjóðavettvangi – The New York Times, Newsweek, Time, National Geographic, Digital Photographer, New Scientists og fleiri.

Ragnar í Perlunni

Störf Ragnars í Perlunni ber vitni um snilli hans.

  • Verk Ragnars prýða marga stóra veggi á sýningum Perlunnar. Margar myndanna eru settar saman úr hundruðum ljósmynda. Dæmi um þetta er myndin hans frá Fljótshlíð, sem má sjá hér. Annað verk þekur veggina á hringlaga sýningarrými um jökla. Sú mynd sýnir útsýnið ofan af Vatnajökli, allan hringinn.
  • Við gerð stjörnuvers-sýningarinnar Áróru fóru Ragnar og Snorri Þór Tryggvason ljósmyndari nýjar leiðir til að fanga undur himingeimsins á mynd. Þeir bjuggu til 360° myndefni í 8K myndgæðum svo Vetrarbrautin og norðurljósin geti dansað allt í kring um gesti Perlunnar.
  • Ragnar vinnur líka með mun smærri náttúruundur. Fyrir sýninguna Vatn í náttúru Íslands myndaði hann örsmáar vatnaverur, sumar aðeins 10 mm í þvermál. Þá tók hann 50-100 myndir af hverri veru þar sem aðeins lítill blettur var í fókus hverju sinni. Að lokum klippti hann þessa bletti saman í stórar myndir af örverunum. Þetta ferli getur vel tekið meira en einn vinnudag.

Ragnar er alltaf á tánum og tilbúinn að elta veðrið til að ljósmynda náttúruundur við ólíkar aðstæður. Fyrir honum er málið einfalt; „Ég elti ljósið, ekki tímann.“

Mynd Ragnars frá Fljótshlíð, sett saman úr hundruðum ljósmynda frá sama degi. Verkið prýðir nú stóran vegg í mótttöku Perlunnar.

Ragnar og Snorri á ísilögðu Mývatni við tökur fyrir Áróru, stjörnuverssýningu Perlunnar 2019.

Ein af vatnaverunum sem Ragnar myndaði.

Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »